15. febrúar 2019

Önnur vel heppnuð útgáfa grænna skuldabréfa í umsjón Fossa markaða

Vel heppnað útboð Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á grænum skuldabréfum fór fram 13. febrúar. Fossar markaðir höfðu umsjón með útgáfunni og nam heildareftirspurnin 6,3 milljörðum króna. Tilboðum var tekið fyrir um 3,5 milljarða króna á ávöxtunarkröfunni 2,6%. Þetta er í annað sinn sem gefin eru út græn skuldabréf á Íslandi, sem standa íslenskum frjárfestum til boða. Í bæði skiptin hafa Fossar haft umsjón með útgáfunni, sölu og kynningu bréfanna, síðast fyrir Reykjavíkurborg í desember sl.

Innleiðing að erlendri fyrirmynd
Sérfræðingar Fossa markaða hafa fylgst með alþjóðlegri þróun hvað varðar útgáfu grænna skuldabréfa og hafa innan fyrirtækisins byggt upp þá þekkingu og sérhæfingu sem þarf til að leiða innleiðingu þessa fjárfestingarkosts á íslenskum markaði.
„Í dag velja flestir og líklega allir norrænir útgefendur Green Bond Principle, eða GBP-staðal, þegar kemur að útgáfu grænna bréfa,“ segir Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Fossa markaða, en um er að ræða leiðbeinandi viðmiðunarreglur sem fyrst voru settar fram 2014 af Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði (ICMA).

Allir geta gefið út græn skuldabréf
Andri segir að Fossar finni fyrir auknum áhuga hefðbundinna skuldabréfafjárfesta á grænum skuldabréfum, en eins hafi komið fram fjárfestar sem sérhæfi sig í fjárfestingum á þessu sviði. „Allir útgefendur skuldabréfa sem fjárfesta í umhverfisvænum verkefnum geta gefið út græn skuldabréf, hvort sem það eru ríki, sveitarfélög eða fyrirtæki,“ bætir hann við.

Græn skuldabréf eru „venjuleg“ skuldabréf sem gefin eru út til að fjármagna eða endurfjármagna verkefni sem hafa jákvæð umhverfis og/eða loftlagsáhrif, en tilgangur útgáfu OR er að fjármagna þau fjölmörgu grænu verkefni sem eru á döfinni hjá OR og dótturfyrirtækjunum – Veitum og Orku náttúrunnar. Meðal verkefna sem þar eru undir er orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, svo sem raforkuvinnslu og stækkun hitaveitna, vatnsvernd og eflingu fráveitna, snjallvæðing veitukerfa, og verkefni tengd kolefnisbindingu.

Sameiginlegir hagsmunir útgefenda og fjárfesta
Útgáfa bæði Reykjavíkurborgar og OR er samkvæmt GBP-staðli og umgjörð útgáfunnar með vottun frá CICERO (Center for International Climate Research), en á alþjóðavísu hafa hátt í 100 útgefendur valið útgáfu sinni þá umgjörð. Fylgt er ströngum ferlum sem gera kröfur til útgefenda og fjárfestar fá skýrslur um framgang þeirra grænu verkefna sem ráðist er í.

Ný græn skuldarbréf OR eru til 36 ára og bera fasta verðtryggða vexti. Viðskipti með bréfin eiga sér stað á Nasdaq Iceland Sustainable Bond markaðnum. Flokkurinn er jafngreiðsluflokkur með greiðslum höfuðstóls og vaxta á sex mánaða fresti og lokagjalddaga 18. febrúar 2055.