24. júní 2020

Ísland verður hluti af vaxtarmarkaðavísitölu MSCI

Í dag tilkynnti MSCI að Íslandsvísitalan hjá fyrirtækinu (MSCI Iceland Index) færist úr flokki stakra markaða yfir í flokk vaxtarmarkaða. Tilfærslan gengur að fullu í gegn samhliða reglubundinni endurskoðun á vísitölum fyrirtækisins í maí 2021. Breytingin leiðir til þess að verðbréf tveggja fyrirtækja (MAREL IR og ARION IR) verða hluti af vaxtarmarkaðavísitölu MSCI (utan Kúveit) með ætluðu vægi upp á 5,24 prósent, samkvæmt hermigreiningu sem byggir á gögnum frá 18. júní 2020.

„Um er að ræða breytingu sem hefur mikil áhrif til hins betra á íslenska markaðinn og hefur raunar verið vænst um nokkurt skeið. Skráning Íslands í flokk vaxtarmarkaða MSCI styður það starf sem við höfum unnið við markaðssetningu Íslands sem fjárfestingarkosts fyrir erlenda fjárfesta. Með þessu fara vísitölusjóðir meðal annars að eiga viðskipti hérna, en fjárfestingarheimildir margra sjóða kveða á um að þeir megi ekki fjárfesta í fjármálagjörningum sem ekki eru hluti af alþjóðlegri vísitölu. Með breyttri skráningu Íslands hjá MSCI opnast því dyr fyrir marga erlenda sjóði,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

MSCI tilkynnti einnig um fyrirhugað samráð um mögulega skráningu MSCI Iceland í vísitölurnar MSCI Frontier Markets 100 og MSCI Frontier Markets 15% Country Capped. Niðurstöður samráðsins verða tilkynntar samhliða endurskoðun samsetningar vísitalnanna í febrúar 2021.

Íslandi varð hluti af vaxtarmarkaðavísitölum FTSE í september 2019, eftir að hafa fengið endurflokkun sem vaxtarmarkaður í september 2018.