Reynsla Fossa af dönsku kauphöllinni er góð

22.2.2019

Í tilefni af því að þrjú íslensk fjármálafyrirtæki hafa á skömmum tíma gerst aðilar að dönsku kauphöllinni er rætt við Nikolaj Kosakewitsch, forstjóra Nasdaq Copenhagen, í nýjasta tölublaði Viðskiptamoggans. Fossar markaðir voru fyrst íslensku fyrirtækjanna aðilar bæði að dönsku og sænsku kauphöllinni í september 2018 og var Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa, spurður um reynsluna af tengingum við erlendar kauphallir.

Jákvæð áhrif á markaðinn
„Það að vera með aðild að Nasdaq Copenhagen þýðir að þú ert ekki bara hluti af stóra Nasdaq-samhenginu, heldur ertu kominn í návígi við mikinn fjölda alþjóðlegra fjárfesta,“ segir Kosakewitsch í viðtalinu. Hann segir íslenskt fjármálaumhverfi lengi hafa verið mjög aðlögunarhæft þegar komi að fjárfestingum. Aðild að dönsku kauphöllinni sé því mjög eðlileg þróun.

Kosakewitsch bendir á að vilji bankar og fjármálafyrirtæki veita viðskiptavinum sínum skjóta og ódýra þjónustu, þá sé leiðin sú að bæta við skráningu í dönsku kauphöllinni. „Sérstaklega ef þú ert nú þegar með aðild að íslensku kauphöllinni eins og þessi fyrirtæki eru með.“ Aðild fjármálafyrirtækja að tveimur Nasdaqkauphöllum hafi líka jákvæð áhrif á fyrirtæki á markaðinum sem séu með tvöfalda skráningu. „Því meiri og betri aðgang sem fjárfestar hafa að viðskiptum með bréfin því betri er verðmyndunin.“

Betri og hraðari þjónusta
Haraldur Þórðarson greinir frá því í blaðinu að reynslan af aðildinni að dönsku kauphöllinni hafi verið mjög fín. Á sama tíma gerðust Fossar jafnframt aðilar að sænsku kauphöllinni. „Við erum búin að eiga nokkuð reglulega viðskipti í báðum kauphöllum síðan í september sl. með góðum árangri. Þessi beina aðild að þessum tveimur kauphöllum kemur að góðum notum, ekki hvað síst þegar kemur að viðskiptum með Össur í Danmörku og Arion banka í Svíþjóð. Aðildin gerir öll viðskipti með þessi félög auðveldari og ódýrari fyrir okkar viðskiptavini,“ segir hann.

Bent er á að Marel standi nú frammi fyrir vali á milli Danmerkur og Hollands sem skráningarlands fyrir tvíhliða skráningu á hlutabréfamarkað. „Ef Danmörk verður fyrir valinu hjá Marel, sem væri ekkert óeðlilegt, þá kemur aðild íslenskra fjármálafyrirtækja að kauphöllinni í Kaupmannahöfn sér afar vel fyrir hluthafa,“ segir Haraldur í blaðinu og bendir um leið á að Fossar hafi aðgang að um 80 kauphöllum um allan heim, en þá í gegnum milliliði. „Slíkt getur haft áhrif á verðlagningu þar sem milliliðir eru fleiri. Með beinni aðild þá getum við enn fremur veitt betri og hraðari þjónustu.“