Fyrstu grænu skuldabréf Orkuveitu Reykjavíkur skráð á Nasdaq Iceland

4.7.2019

Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) tilkynnir að Orkuveita Reykjavíkur (OR) skráði í dag fyrsta græna skuldabréfaflokk sinn á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf. Skuldabréfaflokkurinn er um 7,5 milljarðar króna að nafnvirði og er verðtryggður til 36 ára. Fyrsta útgáfan í skuldabréfaflokknum var 18. febrúar sl. OR hyggst halda áfram að gefa út skuldabréf í flokknum á næstu árum.

OR hefur sett sér grænan ramma (Reykjavik Energy Green Bond Framework) utan um útgáfu grænna skuldabréfa félagsins. Ramminn fylgir svokölluðum „Green Bond Principles“ viðmiðum útgefnum af ICMA, Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði. Þess utan hefur grænn rammi OR fengið hlotið einkunnina dökkgrænn (Dark Green) samkvæmt mati CICERO (Center for International Climate Research). CICERO gaf OR einnig hæstu einkunn (Excellent) fyrir stjórnarhætti í kringum útgáfuna og staðfesti að ramminn væri samkvæmt viðmiðum Green Bond Principles. Grænu skuldabréfin verða notuð til fjármögnunar eða endurfjármögnunar á verkefnum sem hafa umhverfislegan ávinning, eins og orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, snjallvæðingu veitukerfa, vatnsvernd og eflingu fráveitna.

„Við erum mjög stolt og ánægð með viðtökur á þessari fyrstu útgáfu okkar á grænum skuldabréfum” sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. „Eftirspurn fjárfesta eftir grænum skuldabréfum hefur verið mikil sem sýnir öflugan stuðning þeirra við verkefni sem varða umhverfis- og loftslagsbreytingar. Sjálfbær, umhverfisvæn og samfélagslega ábyrg starfsemi er grundvöllur langtímastefnu OR og er þetta stórt skref í að samþætta fjármögnun og samfélagsábyrgð, sem og það sameiginlega verkefni að berjast gegn umhverfis- og loftslagsbreytingum.“

„Við óskum OR til hamingju með þennan mikilvæga áfanga“ sagði Magnús Harðarson, aðstoðarforstjóri Nasdaq Iceland. „Skráning grænu skuldabréfa OR á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf ber vott um áframhaldandi vöxt hans og við höfum séð mikinn áhuga frá bæði fjárfestum og útgefendum í þessum efnum. Við eigum von á því að fleiri fylgi í fótspor OR í náinni framtíð þar sem aldrei hefur verið meiri gaumur gefinn að sjálfbærum rekstri en nú.“

Fossar markaðir höfðu umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna sem og töku þeirra til viðskipta á Nasdaq Iceland.