Fyrsta innlenda útgáfa grænna skuldabréfa í umsjón Fossa

3.12.2018

Fjallað er um útgáfu Reykjavíkurborgar á grænum skuldabréfum í nýjasta tölublaði Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagslíf. Rætt er um útgáfuna og gildi grænna skuldabréfa við Andra Guðmundsson, framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar Fossa markaða, en Fossar hafa umsjón með sölu bréfanna og samskipti við fjárfesta.
Meðal þess sem Andri bendir á við viðtalinu við Markaðinn er að með útgáfu grænna skuldabréfa sendi útgefandi þeirra skýr skilaboð um vilja sinn til að stuðla að umhverfisvernd og vitund um þá miklu áhættu sem fylgi loftslagsbreytingum.

Grænum skuldabréfum fylgir viðbótarávinningur
„Það er mikilvægt að sterkur aðili sem gefur reglulega út skuldabréf ryðji brautina fyrir græn skuldabréf á íslenska markaðnum,“ segir Andri í viðtalinu við Markaðinn, en útgáfa borgarinnar er sú fyrsta í íslenskum krónum.
Græn skuldabréf eru gefin út til að fjármagna umhverfisvæn verkefni, ekki síst þau sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Auk þess að undirstrika meðvitund sína um þau mál segir Andri fleiri kosti samfara útgáfu grænna skuldabréfa.
„Útgefendur nefna jafnan að útgáfan auki samstarf innanhúss og ólík svið sem annars myndu aðeins hittast á árshátíðinni þurfi nú að vinna saman. Umhverfissvið og fjármálasvið þurfa meðal annars að vinna saman, ekki bara við undirbúning útgáfunnar heldur líka til framtíðar þar sem fjárfestar gera síaukna kröfu um upplýsingagjöf hvað varðar jákvæð áhrif þessara grænu verkefna,“ segir Andri í viðtalinu.

Fossar fengu Mats Andersson til landsins
Þá kemur fram í umfjöllun Markaðarins að Fossar markaðir hafi fengið Mats Andersson, fyrrverandi forstjóra sænska ríkislífeyrissjóðsins AP4, til landsins til að ræða við fjárfesta og stjórnvöld um græn skuldabréf.
„Andersson fór jafnframt fyrir nefnd á vegum sænska fjármálaráðuneytisins um hvernig megi efla markaðinn með græn skuldabréf,“ segir í blaðinu, en hann starfar nú sem ráðgjafi franskra stjórnvalda í tengslum við græna útgáfu franska ríkisins.
„Á meðal þess sem hann fjallaði um voru áhrif loftslagsbreytinga á fjárfesta næstu áratugi og hvernig fjárfestar geta brugðist við þeirri áhættu með því að beina fjárfestingum sínum í græna útgefendur hluta- og skuldabréfa.“

Umfjöllun Markaðarins og viðtal við Andra Guðmundsson má lesa í heild sinni HÉR á vef Fréttablaðsins.