Fossar sjá um útboð á nýjum skuldabréfaflokki Reita, 5. júní nk.

3.6.2019

Nýr flokkur skuldabréfa
Stjórn Reita hefur ákveðið að hefja útgáfu á nýjum flokki skuldabréfa, REITIR150529. Flokkurinn er verðtryggður og tryggður með almennu tryggingafyrirkomulagi félagsins. Flokkurinn er með lokagjalddaga að 10 árum liðnum en endurgreiðsluferli höfuðstóls fylgir 30 ára greiðsluferli með jöfnum afborgunum. Meðallíftími flokksins (e. duration) á útgáfudegi er um 7 ár. Flokkurinn ber fasta 2,50% vexti en greiðslur vaxta og afborgana verða á tveggja mánaða fresti. Óskað verður eftir því að flokkurinn verði tekinn til viðskipta á Nasdaq Iceland.

Lokað útboð 5. júní nk.
Miðvikudaginn 5. júní nk. verður lokað útboð þar sem fjárfestum stendur til boða að kaupa skuldabréf í þessum nýja flokki REITIR150529. Útboðið verður með hollenskri aðferð, þ.e. öll samþykkt tilboð bjóðast fjárfestum á hæstu ávöxtunarkröfu sem tekið er. Félagið áskilur sér rétt til þess að taka hvaða tilboði sem er, í heild eða að hluta, eða hafna þeim öllum. Áætlaður uppgjörsdagur er þriðjudagurinn 18. júní 2019. Fossar markaðir hf. hafa umsjón með útboðinu og kynna það fyrir fjárfestum.

Jafnframt fer fram skiptiútboð þar sem eigendur flokksins REITIR151124 eiga þess kost að selja bréf í flokknum gegn kaupum á skuldabréfum í ofangreindu útboði. Verð skuldabréfa í flokki REITIR151124 er fyrirframákveðið og svarar til 2,55% ávöxtunarkröfu til uppgjörsdags. Reitir áskilja sér rétt til að breyta verði REITIR151124 í skiptiútboðinu verði miklar breytingar á markaði fram að útboði.

Útboðið er lokað og undanþegið gerð lýsingar, sbr. 1. mgr., 1. tl. a og b, 50. greinar laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Grunnlýsing, endanlegir skilmálar og önnur skjöl er varða útgáfu framangreinds skuldabréfaflokks eru birt á vefsíðu félagsins, reitir.is/fjarfestar. Tilkynningar sem Reitir fasteignafélag hf. birtir í tengslum við viðvarandi upplýsingaskyldu frá birtingu grunnlýsingar má jafnframt nálgast á vefsíðu félagsins.