Fossar markaðir stóðu að heimsókn Sean Kidney

21.11.2019

Nýleg heimsókn Sean Kidney, stofnanda og framkvæmdastjóra Climate Bonds Initiative (CBI), til Íslands var vel heppnuð og vakti mikla eftirtekt. Fossar markaðir gengu nýverið til liðs við CBI og stóðu að heimsókn Kidneys, sem meðal annars fundaði með forsætisráðherra og umhverfisráðherra um græn skuldabréf. CBI vinnur að því að virkja skuldabréfamarkaði á heimsvísu í þágu umhverfismála.

Í viðtali Fréttablaðsins við Kidney kemur fram að hann telji auknar sveiflur sem rekja megi til hlýnunar jarðar leiði í auknum mæli gera fjárfestum erfiðara að veðja á rétt fyrirtæki. Því þurfi að bregðast við hlýnun jarðar og þar sé aukin útgáfa grænna skuldabréfa ein leið, en græn skuldabréf eru eyrnamerkt umhverfisvænum verkefnum. Hann segir áhættu og ávöxtun grænna skuldabréfa svipaða og hefðbundinna skuldabréfa. „Þau eru því skynsamlegur fjárfestingarkostur og gera hagkerfið betur í stakk búið til að mæta umhverfisvánni,“ segir hann í viðtalinu við Fréttablaðið og hvetur íslensk stjórnvöld til að leggja sitt af mörkum og gefa út græn skuldabréf.

Í viðtali í ViðskiptaMogga Morgunblaðsins segir Kidney að Ísland gæti orðið fyrsta þjóðríkið í sögunni til að gefa eingöngu út græn skuldabréf. Honum hafi verið vel tekið af fulltrúum stjórnvalda og viðtökur við máli hans verið góðar. „Það er líka mjög mikill áhugi á málinu hjá íslenskum fjárfestum, og grænar skuldabréfaútgáfur hér á landi hafa fengið allt að tífalda umframeftirspurn,“ segir hann í viðtalinu. Hann bendir líka á að græn skuldabréf séu hraðast vaxandi verðbréfaafurðin í heiminum í dag. Í fyrra hafi verið gefin út bréf fyrir 167 milljarða Bandaríkjadala, á þessu ári verði talan 250 milljarðar og á næsta ári segir hann að stefni í allt að 400 milljarða dala útgáfu. „Um mitt næsta ár verður útgáfan samtals komin í eina trilljón Bandaríkjadala.“