Fossar markaðir í samstarf við Redington í Bretlandi

4.10.2018

Gefa út lista yfir bestu eignastýringar heims

Fossar markaðir hafa undirritað samstarfssamning við breska fjárfestingaráðgjafarfyrirtækið Redington. Samstarfið felur í sér að starfsfólk fagfjárfestaþjónustu Fossa og viðskiptavinir félagsins hafa nú aðgang að greiningum Redington á eignastýringarhúsum á heimsvísu.

Hjá Redington starfar sérhæft og reynslumikið rannsóknateymi skipað sérfræðingum í öllum helstu eignaflokkum. Sérfræðikunnátta teymisins nær yfir 45 eignaflokka um allan heim og byggir á sérsniðinni nálgun þar sem greind eru 5-10% þeirra eignastýringarhúsa sem hafa náð bestum árangri í hverjum eignaflokki fyrir sig.

Með samstarfinu fæst aðgangur að upplýsingum og gögnum sem gefa Fossum mörkuðum og viðskiptavinum félagsins gott yfirlit yfir þá fjárfestingarkosti og sjóði sem stýrt er af farsælustu fjárfestingastjórum í öllum helstu eignaflokkum. Þessar upplýsingar verða notaðar til grundvallar markvissrar ráðgjafar til íslenskra fjárfesta að teknu tilliti til markmiða þeirra og þarfa.

Einstakt tækifæri

David Witzer, framkvæmdastjóri fagfjárfestaþjónustu Fossa markaða, er ánægður með samstarfið við Redington og telur rannsóknargetu Redington án hliðstæðu. „Um er að ræða spennandi samstarf sem gerir okkur kleift að bjóða íslenskum stofnanafjárfestum sem vilja auka erlenda eignadreifingu einstakt tækifæri á sviði fjárfestinga.“

Nick Samuels, yfirmaður fjárfestingarannsókna hjá Redington, segir: „Við hlökkum til að vinna að því markmiði með Fossum mörkuðum að auka gæði fjárfestinga íslenskra fjárfesta og styðja þá í uppbyggingu eignasafna sinna með eignadreifingu um allan heim. Áhersla Fossa markaða á að tryggja viðskiptavinum sínum hámarksárangur í fjárfestingum, gerir fyrirtækið að ákjósanlegum samstarfsaðila fyrir okkur, á sama tíma og við byggjum upp starfsemi okkar á þessum nýja markaði.“