David Witzer leiðir Fossa markaði í London

23.6.2017

David Witzer hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fossa markaða í London. Fossar markaðir hófu nýlega starfsemi í borginni í kjölfar vaxandi erlendra umsvifa í aðdraganda og eftir losun gjaldeyrishafta á Íslandi. Fossar reka nú þegar skrifstofu í Stokkhólmi ásamt því að vera með aðalskrifstofur í Reykjavík.

Witzer hefur mikla reynslu af erlendum fjármálamörkuðum. Frá árinu 1995 hefur hann verið í hópi stjórnenda og einn eigenda breska eignastýringarfélagsins Rogge Global Partners ltd. Samhliða því hefur hann verið framkvæmdastjóri hjá Tokio Marine Rogge Asset Management Ltd., sem er samrekstrarfélag Rogge Global Partners.
Witzer hefur stýrt erlendum samskiptum hjá fyrirtækinu, sinnt ráðgjafstörfum, upplýsingatækni, regluverki, mannauðsmálum og samningagerð fyrir félagið víða um heim. Þá hefur hann komið að stofnun verðbréfasjóða víða um heim, þar á meðal á Írlandi, í Lúxemborg og Bandaríkjunum.

David útskrifaðist með meistaragráðu (LL.M) í alþjóðlegri viðskiptalögfræði frá Háskólanum í Liverpool.
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða:

„Á síðustu árum höfum við byggt upp öflugt tengslanet alþjóðlegra fjárfesta og höfum gott orðspor í þjónustu okkar við erlenda jafnt sem innlenda fjárfesta. Starfsemi okkar í London mun auka við þá öflugu starfsemi sem Fossar hafa skapað frá stofnun félagsins, fjölga tækifærum fyrir erlenda aðila til að fjárfesta á Íslandi og að sama skapi fyrir Íslendingar sem vilja fjárfesta erlendis.
Okkur er því sönn ánægja að fá David til að stýra starfsemi okkar í London og bætast í öflugt starfsmannateymi Fossa í þremur löndum. Fyrir utan áratugareynslu á fjármálamörkuðum hefur hann á ferli sínum lagt sérstaka áherslu á vandaða stjórnarhætti og skilvirka starfsemi innan fjármálastofnanna, tekið þátt í fjölda starfshópa og ráðstefnum, sem stuðla að heilindum og bættu siðferði í fjármálaheiminum.“