17. maí 2021

Fossar markaðir bjóða upp á eignastýringu

Fjármálaeftirlitið hefur veitt Fossum mörkuðum leyfi til eignastýringar.

Eignastýring er ný viðbót við þjónustu Fossa markaða á fjármálamarkaði og býður félagið nú viðskiptavinum sínum upp á einkabankaþjónustu og stýringu eignasafna. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur veitt Fossum starfsleyfi á sviði stýringar eigna fyrir þriðja aðila, hvort sem um er að ræða stofnanir, félög eða einstaklinga. Leyfið er viðbót við aðra þjónustu sem Fossar markaðir veita og sameinast nú einkabankaþjónusta, safnastýring og fagfjárfestaþjónusta undir nýju sviði.

Eignastýringarstarfsemi Fossa markaða verður til húsa í Næpunni, á Skálholtsstíg 7, steinsnar frá höfuðstöðvum Fossa við Fríkirkjuveg.

Fyrir starfsemi Fossa markaða á sviði eignastýringar fer Anna Þorbjörg Jónsdóttir, en hún fór fyrir fagfjárfestaþjónustu Fossa sem verður nú hluti af eignastýringarsviði félagsins. Anna Þorbjörg hefur víðtæka reynslu á bæði íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum og hefur starfað hjá Fossum mörkuðum frá árinu 2016.

„Eignastýring er mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem Fossar markaðir veita á íslenskum fjármálamarkaði. Við höfum lagt áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar eignadreifingar og bjóðum upp á gott úrval erlendra fjárfestingakosta. Með eignastýringu eykst verulega geta okkar til að þjóna viðskiptavinum okkar og hlakka ég mjög til starfsins fram undan,” segir Anna Þorbjörg.

„Hjá Fossum mörkuðum vinnum við stöðugt að því að auka vöruúrval okkar og efla þjónustu við viðskiptavini. Með því að bæta við eignastýringu komum við til móts við okkar viðskiptavini sem margir hverjir hafa óskað eftir að við þjónustum þá með enn víðtækari hætti en við gerum nú. Fossar markaðir byggja á traustu orðspori og reynslumiklum hópi starfsfólks og við fögnum þessari viðbót og tækifærum sem starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins til eignastýringar færir okkur,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

Starfsleyfi Fossa markaða til eignastýringar er veitt að undangenginni yfirferð Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á umsókn frá félaginu og bætist við aðrar starfsheimildir sem félagið hefur á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki.

Fossar markaðir hf. sinna fjölbreyttri fjármálaþjónustu fyrir innlenda og erlenda fjárfesta með áherslu á markaðsviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Reykjavík. Starfsmenn Fossa eru reyndir sérfræðingar með viðamikla reynslu á bæði innlendum og alþjóðlegum fjármálamörkuðum.