27. nóvember 2018

Fossar afhenda 8,2 milljónir til styrktar ungmennum í fíknivanda

Afrakstur Takk dagsins mun meðal annars tryggja forvarnafræðslu í öllum grunnskólum landsins

Þjóðarátakið Ég á bara eitt líf og Bergið, móttöku- og stuðningssetur fyrir ungt fólk, hafa fengið afhentar 8,2 milljónir króna sem söfnuðust á Takk degi Fossa markaða fimmtudaginn 22. nóvember. Upphæðin skiptist jafnt þannig að hvor um sig fær 4,1 milljón króna í styrk.

Ég á bara eitt líf vinnur að því að sporna við og draga úr notkun vímuefna með sérstaka áherslu á lyfjamisnotkun. Bergið verður þverfaglegt móttöku- og stuðningsúrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára þar sem í boði verður einstaklings- og áfallamiðuð þjónusta.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa, afhenti Andreu Ýr Arnarsdóttur, formanni Ég á bara eitt líf, og Sigurþóru Steinunni Bergsdóttur, stjórnarformanni Bergsins, söfnunarféð á aðalskrifstofu Fossa við Fríkirkjuveg í Reykjavík í dag, þriðjudag.

Sporna við ótímabærum dauðsföllum
„Segja má að í dag ríki faraldur á Íslandi meðal ungs fólks varðandi misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum sem leitt hefur af sér fjölda ótímabærra dauðsfalla. Með styrknum frá Fossum, sem við erum ólýsanlega þakklát fyrir, getum við boðið gjaldfrjálsa forvarnarfræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins,“ segir Andrea Ýr Arnarsdóttir, formaður Minningarsjóðs Einars Darra sem stendur fyrir þjóðarátakinu Ég á bara eitt líf. „Við erum afskaplega ánægð með góðan stuðning sem við höfum notið. Við erum öll í þessu þjóðarátaki saman.“

Einstaklingsmiðuð aðstoð við ungmenni
„Við erum að taka fyrstu skrefin í stofnun og uppbyggingu þjónustu Bergsins og styrkur sem þessi skiptir miklu máli í þeirri vinnu sem fram undan er við að búa til vettvang þar sem ungt fólk getur fengið beint samband við aðila sem veita stuðning og ráðgjöf út frá þörfum hvers og eins. Öflugur stuðningur þýðir að við getum fyrr stækkað sérfræðiteymið og unnið alla undirbúningsvinnu hraðar,“ segir Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir, stjórnarformaður Bergsins. „Bergið verður hjartað í starfsemi þar sem ungt fólk og fjölskyldur þess geta leitað aðstoðar og fengið stuðning við greiningu vanda og mat á hvaða úrræða er þörf. Starfsemin verður fjölbreytt og miðuð að þörfum ungmennanna sjálfra.“

Takk deginum afskaplega vel tekið
Takk dagurinn var haldinn í fjórða sinn 22. nóvember síðastliðinn. „Árangurinn var vonum framar í ár og Fossar sem og viðskiptavinir félagsins sameinuðust um að styðja við þetta mikilvæga málefni. Um leið og við minntumst þeirra áskorana sem ungt fólk stendur frammi fyrir var þetta gleðidagur því allir lögðust á eitt,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa. Á síðustu fjórum árum hafa safnast á þriðja tug milljóna sem hafa runnið til góðra málefna.

Takk dagurinn er árviss viðburður þar sem þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins hjá Fossum mörkuðum renna til góðs málefnis. Auk Fossa taka Kauphöllin, Nasdaq Iceland og uppgjörsfyrirtækið T plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa og láta þau í staðinn renna til söfnunarinnar. Vegna fjölda fyrirspurna var í fyrsta skipti í ár opnaður sérstakur söfnunarreikningur sem fólk gat lagt beint inn á til að styðja við málefnið. Gafst það mjög vel.

„Við hlökkum til að endurtaka leikinn að ári,“ segir Haraldur og bætir við að afskaplega gefandi hafi verið að festa Takk daginn í sessi sem árlegan viðburð.

MYND: Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, hitti fulltrúa frá Ég á bara eitt líf og Berginu í húsakynnum Fossa dag til að afhenda þeim söfnunarféð. Frá vinstri er Bára Tómasdóttir, Aníta Rún Óskarsdóttir og Andrea Ýr Arnarsdóttir, þá Haraldur og síðan Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir og Sara Óskarsson.

Upplýsingar um starfsemi sjóðsins Ég á bara eitt líf er að finna á vefnum www.egabaraeittlif.is og um Bergið á Facebooksíðu setursins, www.facebook.com/bergidokkar. Frekari upplýsingar um starfsemi Fossa markaða eru á vef fyrirtækisins, www.fossar.is.